Þegar rætt er um trúnaðarmann er oftast átt við trúnaðarmann í merkingu laga nr. 80/1938. Í greinargerð laganna frá 1938 segir að með ákvæðinu (þá 10.gr. nú 9.gr) sé „… stéttarfélögum heimilað að skipa sér trúnaðarmenn á vinnustöðum úr hópi vinnandi manna, er gæti þess að haldnir séu samningar …“ Hann er með öðrum orðum fulltrúi stéttarfélaganna á vinnustaðnum.
Ákvæði um trúnaðarmenn í kjarasamningum komu fyrst inn í samningum verktaka Sogsvirkjunar og Vinnuveitendafélagsins 1935, en fyrir þann tíma höfðu sum íslensku verkalýðsfélaganna átt sína eigin trúnaðarmenn á stærri vinnustöðum. Þeir voru nánast umboðsmenn félagsstjórnanna gagnvart félagsmönnum, oft stjórnarmenn eða hinir virkustu í félagsstarfinu.
Hlutverk trúnaðarmanns
Trúnaðarmenn eru eins og fyrr segir fulltrúar viðkomandi stéttarfélaga á vinnustaðnum. Hlutverk þeirra er skilgreint í 9. gr. laga nr. 80/1938. Þar segir: „Trúnaðarmaður skal gæta þess, að gerðir vinnusamningar séu haldnir af atvinnurekanda og fulltrúum hans og að ekki sé gengið á félagslegan eða borgaralegan rétt verkamanna. Þetta ákvæði nær þó ekki til landbúnaðarverkafólks né áhafna skipa eða báta, sem ekki er skylt að lögskrá á.“ Um réttastöðu þeirra sem lögin ná ekki til er samið um í kjarasamningum.
Að vinnusamningar (kjarasamningar) séu haldnir
Þetta er meginhlutverk trúnaðarmanna þ.e. að gæta þess að kjarasamningar stéttarfélagsins séu haldnir á vinnustaðnum. Verkamenn skulu snúa sér til trúnaðarmanns með umkvartanir sínar og trúnaðarmanni ber að sinna þeim þegar í stað.
Félagsleg réttindi virt
Félagsleg réttindi eru í dag m.a. skilgreind í Félagsmálasáttmála Evrópu. Þeim má skipta í tvo flokka. Annars vegar vinnuskilyrði, þar á meðal bann við nauðungarvinnu, jafnrétti á vinnustöðum, réttur til að vera í stéttarfélagi, bann við vinnu barna undir 15 ára aldri og vernd vinnandi fólks á aldrinum 15 til 18 ára, jafn réttur farandverkafólks og annarra o.s.frv. Og hins vegar félagsleg samheldni, þar á meðal rétturinn til heilbrigðis, félagslegs öryggis, heilbrigðisþjónustu, réttur aldraðra á félagslegri vernd o.s.frv.
Borgaraleg réttindi virt
Borgaralegu réttindin sem einnig eru friðhelg eru einfaldari og eru opinbers réttarleg svo sem kosningaréttur og kjörgengi og væri atvinnurekanda allskostar óheimilt að meina starfsmönnum að neyta kosningaréttar eða beita þá þrýstingi í þeim efnum.
Nánari upplýsingar um trúnaðarmenn eru á vef FIT.
Var þessi grein gagnleg?
Það er frábært!
Þakka þér fyrir álit þitt
Því miður! Við gátum ekki verið hjálpleg
Þakka þér fyrir álit þitt
Viðbrögð send
Við kunnum að meta fyrirhöfn þína og munum reyna að laga greinina